Fara yfir á efnissvæði
Kaupa kort
Mínar síður
Tímatafla
Til baka

Tvennt til að hafa í huga

Hugur

Hver kannast ekki við að hafa strengt áramótaheit sem rann út í sandinn jafnvel áður en febrúar gekk í garð?  Áramót hafa löngum verið tími áramótaheita sem er hið besta mál í sjálfu sér en mörg heitin eru sett fram af hálfum hug, mögulega of háleit, gleymast fljótt eða lognast út af.  Mannskepnan er vanaföst vera sem leitast við að vera innan þægindarammans og gjarnan hættir okkur til að pikk festast í viðjum vanans. Allar góðu fyrirætlanirnar einhvernveginn hverfa okkur sjónum og verða að engu. Ekki alltaf, en allt of oft.

Áskorunin er helst sú að við viljum að hlutirnir gerist hratt og áreynslulaust en úthald og þolinmæði þarf til að halda út breytingar á lífsstíl sem eru utan þægindaramma okkar. Agi og staðfesta þurfa að vera til staðar svo halda megi út til lengri tíma og koma upp nýjum venjum.

Jafnvægi er lykilþátturinn. 
Hvernig komum við okkur af sjálfsstýringunni og hefjum markvisst að einbeita okkur að líðan okkar, heilsunni og láta ljós okkar skína?  
Eflum okkur innan sem utan með því að gefa gaum að því sem virkjar orkuna innra með okkur svo að eldmóðurinn og krafturinn verður óstöðvandi.  Hljómar vel ekki satt?

Fyrsta skrefið er að tileinka sér betri næringu, gæða svefn og stunda reglulega hreyfingu.Það er nokkuð öruggt að þannig virkjarðu kraftinn innra með þér. Til að hefja slíka vegferð (ef þú ert ekki nú þegar á þeirri leið) eru hér þrautreynd og góð ráð. 

Skipuleggðu eina breytingu á viku næstu 8 vikurnar.

Screenshot 2022-01-10 at 15.08.01Hafðu tvennt í huga allan tímann:   

1. Það getur enginn gert þetta fyrir þig, árangurinn stendur og fellur með þér.

2. Hve mikið langar þig að bæta lífsstílinn þinn og heilsu?  Spurðu þig þessarar spurningar oft á dag, t.d. þegar þig langar að sleppa ræktinni og þegar þú stendur frammi fyrir þeim óteljandi ákvörðunum sem hver dagur hefur í för með sér.  Velja hollu fæðuna eða láta eftir sér rusl fæðið? Standa upp eða sitja áfram? Veldu það rétta fyrir þig sem kemur þér stöðugt nær markmiðum þínum.  

----------

Eftirfarandi eru 20 tillögur að vikulegum breytingum. Veldu hvað hentar þér best og stefndu að því að festa breytinguna  varanlega í sessi í þínum lífsstíl, en taktu bara einn dag í einu.

Hér er aðeins um að ræða hugmyndir, þú getur gert þinn eigin lista eða prófað hluta af þessum eða allar.  Hafðu í huga að þetta er allt undir þér komið.  Allt hefur áhrif, einkum við sjálf!

1. Minnkaðu sykurneyslu um helming

2. Settu þér reglu að drekka ekki sykraða drykki

3. Hafðu annan hvern dag sykurlausan

4. Farðu að sofa kl. 11

5. Skipuleggðu 10 mín á dag til að hugleiða hvað skiptir þig máli í lífinu

6. Hafðu æfingatöskuna tilbúna að kvöldi

7. Skipuleggðu 3x 30 mín æfingar á viku og veldu það sem líklegt er að þú hafir gaman af

8. Leitaðu til fagaðila í þjálfun ef þú veist af reynslunni að þú þarft á því að halda til að fá aðhald og fræðslu.

9. Hafðu sem reglu að taka aldrei lyftu, alltaf stigana

10. Farðu í 20 mín göngutúr á hverjum degi

11. Minnkaðu alla matarskammta þína um 25%

12. Fastaðu í 12 tíma frá kvöldverði og til næsta morguns.

13. Borðaðu tvær máltíðir á dag og aðeins vatn, kaffi eða te þess á milli

14. Prófaðu eina nýja tegund grænmetis

15. Prófaðu nýja tegund þjálfunar

16. Settu app í símann þinn sem minnir þig á að sitja ekki lengur í einu en 30 mín. í einu

17. Finndu þér lesefni og hlaðvörp sem hvetja þig áfram til heilbrigðara lífernis

18. Hættu að nota tóbak

19. Minnkaðu áfengisneyslu um helming

20. Byrjaðu daginn á 5 mínútna jafnvægisæfingum 

Byrjaðu núna, það er ekki eftir neinu að bíða, tækifærin eru þín.

- Ágústa Johnson

Til baka
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka