Viltu láta þér líða betur í líkamanum og líta betur út í leiðinni?
Við heyrum reglulega að rétt líkamsstaða er mikilvæg góðri heilsu. Við þekkjum strax slæma líkamsstöðu þegar við sjáum hana en fáir eru meðvitaðir um hversu mikilvæg góð líkamsstaða í rauninni er.
En fyrst, hvað er líkamsstaða?
Líkamsstaða er sú staða sem líkaminn okkar fer í þegar við stöndum, sitjum og liggjum. Góð líkamsstaða er rétt afstaða líkamshluta þar sem hæfileg vöðvaspenna styður við þá á móti þyngdaraflinu.
Að öllu jöfnu erum við ekki meðvitað að hugsa út í líkamsstöðuna allan daginn út og inn, heldur eru ákveðnir vöðvar sem gera það fyrir okkur. Margir vöðvahópar m.a. aftanlærisvöðvar og stóru bakvöðvarnir eru gríðarlega mikilvægir í að viðhalda réttri líkamsstöðu. Á meðan að liðböndin hjálpa til við að halda beinagrindinni okkar saman, þá vinna þessir vöðvahópar að því að forða okkur frá því að falla fram fyrir okkur af sökum þyngdaraflsins. Þessir vöðvahópar halda okkur uppréttum og hjálpa okkur að halda jafnvægi í gegnum allar hreyfingar daglegs lífs.
Af hverju er rétt líkamsstaða mikilvæg?
Rétt líkamsstaða auðveldar okkur að standa, ganga, sitja og liggja í stöðu sem er ákjósanlegust fyrir líkamann.
Rétt líkamsstaða:
- Hjálpar til við að halda beinum og liðamótum í réttri afstöðu svo að vöðvar séu notaðir rétt, dregur úr óeðlilegu áreiti á liðfleti sem getur leitt til verkja í liðamótum og gigtareinkenna
- Dregur úr ertingu á liðböndum sem halda liðamótum í hryggsúlunni saman og dregur úr líkum á meiðslum
- Eykur getu vöðva til að vinna á árangursríkari og skilvirkari máta og dregur þannig úr vöðvaþreytu
- Hjálpar til við að draga úr vöðvaálagi, álagsmeiðslum, bak- og vöðvaverkjum
Til að viðhalda góðri líkamsstöðu þarftu að hafa nægilegan vöðvastyrk og liðleika, eðlilega hreyfigetu liðamóta, sér í lagi í hrygg. Að auki þarftu að vera meðvituð um venjur þínar heima við og á vinnustað hvað varðar líkamsbeitingu ef markmiðið er að bæta þær.
Afleiðingar slakrar líkamsstöðu
Slæm líkamsstaða getur leitt af sér að of mikið álag er lagt á visa vöðva, einnig getur það orðið til þess að þeir slakna ef þessu ástandi er viðhaldið lengi. Það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á líkamsstöðuna okkar, t.d. stress, offita, þungun, háir hælar, veikir vöðvar og óvenju stífir vöðvar.
Hvernig er hægt að rétta líkamsstöðuna af?
Með því að vera meðvituð um hvernig við stöndum, sitjum og liggjum er hægt að vinna að því að rétta stöðuna af. Hversu fljótt þú getur rétt stöðuna við fer eftir því hversu lengi þú hefur verið að beita þér rangt og hversu slæmar venjurnar voru þar sem liðamótin aðlagast líkamsbeitingu þinni. Með æfingum er hægt að rétta stöðuna af og hægt og rólega koma á nýjum venjum þar sem þú ómeðvitað heldur réttri líkamsstöðu sem þá mun færa þér heilbrigðari líkamsbeitingu.
Hvernig sit ég rétt?
- Hafðu báða fætur á gólfi eða á fótskemli ef þeir ná ekki niður á gólf
- Ekki krossleggja fætur, ökklar ættu að vera fyrir framan hné
- Hafðu smá bil á milli hnésbóta og stólsetunnar
- Hnén ættu að vera í mjaðmahæð eða þar fyrir neðan
- Stilltu stólbakið þannig að þú fáir stuðning fyrir mjó- og miðbak eða notaðu púða
- Slakaðu á öxlum
- Forðastu að sitja of lengi
Hvernig stend ég rétt?
- Láttu þungann að mestu hvíla á táberginu
- Ekki læsa hnjánum heldur hafðu þau örlítið bogin
- Hafðu fætur í axlabreidd á milli hvors annars
- Leyfðu handleggjum að hanga eðlilega niður með síðum
- Stattu bein og upprétt og dragðu axlir aftur
- Haltu eðlilegri spennu í kviðvöðvum
- Haltu höfðinu beinu, ekki ýta því fram, aftur né til hliðar, eyrnasneplar ættu að vera í línu við axlir
- Færðu þungann frá tám að hælum eða frá einum fæti til annars ef þú þarft að standa lengi
Hvernig ligg ég rétt?
- Finnið dýnu sem passar ykkur. Vanalega er mælt með stífum dýnum en fyrir suma henta mýkri dýnur betur
- Sofðu með kodda. Hægt er að fá sérstaka kodda sem hjálpar fólki sem glímir við verki í stoðkerfi. Sjúkraþjálfarar hjálpa reglulega til við val á koddum og dýnum í sérverslunum
- Forðist að sofa á kviðnum
- Að sofa á hliðinni getur linað bakverki en þá er æskilegt að setja kodda á milli fótanna. Ef þú sefur á bakinu er gott að setja kodda undir hnén
Hafið í huga að þetta er ekki eitthvað sem breytist einn, tveir og tíu!
Þetta er langtímaverkefni sem þarf að sinna samviskusamlega ef ávinningur á að nást.
Tökum þetta í litlum skrefum og hægt og rólega breytast venjur til hins betra, líkamsstaðan verður heilbrigðari og við lítum betur út í leiðinni! Win-win ekki satt? :)