Fara yfir á efnissvæði
Kaupa kort
Mínar síður
Tímatafla
Til baka

Styrktarþjálfun er stórkostlegt yngingarlyf

Hreyfing

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir mannslíkamann að stunda reglulega styrktarþjálfun.

Við vitum öll að styrkur bætir heilsu okkar og lífsgæði. Hversvegna ætli svo mörg okkar sleppi því þá að æfa styrk sérstaklega?
Ef til vill eru lóðin og tækjasalurinn ógnvekjandi við fyrstu kynni og kannski þekkir þú ekki nógu margar styrktaræfingar. Við getum lofað þér því að óttann má yfirstíga, fræðsluna færðu hjá okkur, þú munt læra að hafa gaman af og sannarlega njóta árangursins.

Allir njóta góðs af því að búa yfir styrk og styrktarþjálfun er sannkallað yngingarlyf. 

Aukinn vöðvamassi hefur jákvæð áhrif á útlitið, stinnir vöðvar gefa fallegri útlínur og hraust yfirbragð. Vöðvar þurfa orku og því stærri sem vöðvar eru þeim mun meiri orku þurfa þeir. Meiri vöðvamassi eykur grunnbrennslu líkamans.

Þegar við erum sterk, erum við meira sjálfbjarga í daglegu amstri. Hvort sem styrkurinn nýtist til þess að bera matvörur heim úr búðinni eða barn á bakinu í fjallgöngu. Styrkur er sannarlega nothæfur á margvíslegan hátt í þínu lífi. 

Verkir í mjóbaki og vöðvabólga í öxlum eru oftast afleiðing af stífleika í vöðvum vegna kyrrsetu og hreyfingarleysis. Styrktarþjálfun getur ótrúlega oft verið lausnin við þessum vandamálum sem margir eru að eiga við árum saman.

Við styrktarþjálfun örvum við vöxt heilafruma sem gerir okkur skarpari og minnið betra. 

Bein verða veikari með árunum og sérstaklega við kyrrsetu og hreyfingarleysi en styrktarþjálfun styrkir beinin. 

Hér fylgja svör við nokkrum algengum spurningum um styrktaræfingar.

Hversu reglulega ætti ég að æfa styrk?
Við ráðleggjum þér að gera styrktaræfingar tvisvar sinnum í viku, að hámarki þrisvar sinnum. Rannsókn sem gerð var á þúsundum kvenna í Bandaríkjunum sýndi að lítill munur var á styrkingu beina og myndun vöðvamassa hjá konum sem æfðu styrk 2 og 3 sinnum í viku. Blóðþrýstingur þeirra sem æfðu þrisvar sinnum var þó betri. Við styrktaræfingar “rifna” í raun vöðvavefir örlítið og því er mikilvægt að leyfa vöðvum að hvílast og ná endurheimt áður en byrjað er aftur. Það ættu því allir að hvíla í að minnsta kosti einn dag áður en næsta styrktaræfing er gerð. 

Hve mörgum sinnum er ráðlagt að endurtaka hverja styrktaræfingu og á hvaða hraða?
Nýjar rannsóknir sýna að fjöldi endurtekninga og hraði skiptir ekki höfuðmáli heldur tíminn sem vöðvarnir eru spenntir/virkir í hverri lotu. Ráðlagður tími er á bilinu 30-90 sek. Það gefur auga leið að því þyngri sem lóðin eru, því færri endurtekningar getur þú gert og öfugt. Gott viðmið er að gera ekki færri en 5 endurtekningar og ekki mikið fleiri en 15. Ef þú nærð ekki að gera 5 innan tímarammans ertu líklega að vinna með of þungt og ef þú flýgur yfir 15 endurtekningar í hverri lotu er kominn tími til að þyngja. 

Ef þú einsetur þér að gera hverja lotu í 30-90 sek, og vinna hana þannig að vöðvarnir eru undir álagi allan tímann, hvort sem endurtekningarnar eru 5 eða 15, ertu að gera vel.

Mun ég líta út eins og vöðvabúnt með reglulegri styrktarþjálfun?
Það er hrein og klár mýta að vöðvar verði óþægilega stórir við reglulega styrktarþjálfun. Ummál þitt mun ekki stækka við styrktarþjálfun, þvert á móti mun það minnka enda eykur stækkandi vöðvamassi grunnbrennslu þína. Auk þess mun hann gefa þér fallegri útlínur. 

Við hvetjum þig til að byrja að bæta eigin styrk strax í dag og hlökkum til að taka á móti þér í glænýjum og vel græjuðum tækjasal Heyfingar.

Til baka
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka