Fara yfir á efnissvæði
Kaupa kort
Mínar síður
Tímatafla
Til baka

Huggun í mat - hvað er til ráða?

Næring Hugur

Það er vel þekkt að við leitum gjarnan huggunar í mat til að sefa vanlíðan, gremju, sorg, streitu eða aðrar óþægilegar tilfinningar.   Má leiða að því líkum að sú þróun hafi aukist samhliða auknum hraða og kröfum nútímans.  Rannsóknir í nágrannalöndum hafa sýnt fram á að allt að 50% fólks borðar til að sefa neikvæðar tilfinningar a.m.k. vikulega.

Könnumst við ekki öll við að grípa stöku sinnum í ísdós eða sælgætispoka í pirringskasti til að róa taugarnar? Slíkt gefur okkur augnabliks vellíðan og ekkert að því ef það gerist ekki oft.   En reglulegt tilfinningaát er ekkert smávægilegt vandamál.   Slíkt leiðir auðveldlega til offitu, sykursýki og annarra heilsutengdra vandamála. Vandinn er sálræns eðlis og leiðir fólk gjarnan inn í vítahring sem erfitt er að losna út úr. 

Af hverju tilfinningaát?

Streita og þreyta, ómeðvituð eða meðvituð er iðulega það sem fær okkur til grípa í góðgæti án þess að finna fyrir hungri.  Sem dæmi gæti ergelsi í vinnunni ýtt þér út í að rjúka á nammibarinn og kaupa uppáhalds nammið þitt í stað þess að útbúa þér eitthvað hollt og gott til að seðja hungur.  Viðbrögð okkar við óskemmtilegum aðstæðum koma oft fram í streitu og skyndiþörf fyrir að háma í okkur góðgæti sem einfalt er að nálgast fljótt.  Það er í raun í eðli manneskjunnar að sækja í sætindi og feitmeti í streituástandi, ekki aðeins huglægt en einnig líkamlegt ástand, sem skýrist af því að taugakerfið  fer á yfirsnúning, hækkar við það kortisól sem eykur löngun í sætt, feitt og salt í munninn.

Tenging úr æsku

Þegar okkur líður illa reynum við eðlilega að finna leið til að láta okkur líða betur, finna notalegheit á ný á einhvern hátt.  Þá staðreynd að "gott í gogginn" er okkar fyrsta val í því efni má mögulega rekja til barnæskunnar.  Þekkjum við það ekki flest að sætindi tengdust skemmtun, huggulegheitum og jafnvel verðlaunum fyrir góða hegðun/frammistöðu?  Þannig verður til tenging í heilanum að gott nammi leiðir til jákvæðrar líðan, sem lifir með okkur fram á fullorðinsár og jafnvel í gegnum allt lífið, nema að við meðvitað vinnum í að breyta því. 
Þrátt fyrir að við vitum vel að sætindi gera okkur ekki gott nema að mjög litlu leyti í smáum skömmtum (ánægjan), þá segir heilinn okkur að eitthvað sem smakkast vel losar um streitu.  Með tímanum venjumst við á að borða til að slaka á og auka vellíðan og það verður viðtekin venja.

Ofát og sektarkennd

Emotional+OvereatingNæsta stig er ofát.  Streitan keyrir í gang þörfina í sælgæti, kökur, pizzu, ís, snakk eða hvað sem er sem hendi er næst.  Í langflestum tilfellum er það því miður ekki hollustan sem við grípum í. Hver sækir svo sem í að narta í gulrót þegar honum líður illa og vill hressa upp á skapið?  Óhollustan sem verður fyrir valinu er heldur ekki seðjandi svo líkur eru á að við borðum þar til ekkert er eftir.

Þá kemur sektarkenndin.  Eftir að hafa klárað nammipokann, tæmt ísdósina eða  konfektkassann hellist yfir okkur sektarkenndin.  Ekki gerir hún okkur nokkurt gagn nema síður sé.

Góð ráð

Leiðin til að komast út úr vítahringnum er að grípa til annarra ráða en að borða þegar vanlíðan hellist yfir okkur.  Röskur göngutúr, notalegt heitt bað við kertaljós, hugleiðsla og slökun, lestur góðrar bókar, góð og hressandi æfing með tilheyrandi áreynslu eða að ræða við einhvern skilningsríkan aðila er allt líklegt til meiri og betri árangurs.  Stundum þarf langtímalausn ef vandinn er djúpstæður og vinna þarf í því að ná tökum á vandamálum sem leiða til tilfinningaáts en slíkt getur verið nauðsynlegt að vinna með fagaðilum.

Ítrekað mynstur neyslu sem hér er lýst að ofan getur haft djúpar og alvarlegar afleiðingar og leitt til vonleysis, brotinnar sjálfsmyndar og orðið risavaxið og jafnvel lamandi vandamál.  Því er brýnt að leita leiða til að komast út úr vítahringnum og það eru alltaf til leiðir.

Að lokum

exerc.Að læra að hafa góða stjórn á matarneyslu gerist ekki á einum degi eða viku.  En mjög margir ná góðri stjórn með einbeittri vinnu í streitustjórnun og bæta þannig heilsu sína og líðan til mikilla muna.  Fyrst þarf að greina vandann, vera meðvitaður og gott ráð er að halda dagbók yfir matarneyslu og líðan.   Finna aðrar leiðir til að stjórna sætindalöngun og streitu.  Sumir ná að vinna í málinu einir síns liðs en aðrir með aðstoð fagfólks.  

Aðalatriðið er að setja heilsuna í forgang.  Og já, alltaf komum við að því sama... regluleg hreyfing, góðar svefnvenjur, holl næring og daglegar slökunarstundir eru undirstaðan að því að láta sér líða betur, njóta betri lífsgæða og viðhalda bættri heilsu.  Allt hjálpar, einkum við sjálf.

- Ágústa Johnson

Ultrahuman - Sílesandi blóðsykursmælir

26.990 kr. 21.592 kr. -20%

Jógahandklæði

6.990 kr. 5.592 kr. -20%

Fjórar vikur fjögur ráð

6.990 kr. 5.592 kr. -20%
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka