Notaleg ostabaka
Hvað eiga lopapeysa og þessi girnilega ostabaka sameiginlegt?
Rétt til getið: báðar eru unaðslega notalegar: Þessa böku má gera á rólegum morgni og njóta hennar næstu þrjá daga - uppskriftin gefur fjóra hæfilega skammta.
Það þarf að nota þurrkaðar baunir og bökunarpappír til að baka bökuskelina „blint“ svo að botninn verði ekki blautur.
Það sem til þarf:
Smjör til að smyrja formið
1 pakki (320g) tilbúið útflatt bökudeig
150g grísk jógúrt, ekki fituskert
2 heil egg og 2 eggjarauður að auki
60g frosnar grænar baunir
60g geitaostur (rúlla) skorinn í 6 jafnar sneiðar
1 msk saxaður graslaukur
Salt og pipar
Svona er þetta gert:
Hitið ofninn í 200°C / 180°C með blæstri. Smyrjið lausbotna köku- eða bökuform, 20 cm í þvermál og a.m.k. 2,5 cm djúpt, vel með smjöri. Leggið útflatt bökudeigið yfir mótið og þrýstið því gætilega niður í formið og upp með kantinum. Skerið deig sem lafir út fyrir kantinn frá með beittum hníf.
Klippið hring úr bökunarpappír, töluvert stærri en formið, og leggið yfir deigið. Fyllið svo formið af þurrkuðum baunum eða hrísgrjónum. Þetta kallast blindbökun og er gert til að deigbotninn lyfti sér ekki upp þegar hann bakast, heldur haldist stökkur og sléttur. Setjið formið í ofninn og bakið um 15 mínútur, eða þar til bökuskelin er farin að taka lit og orðin stíf.
Gerið fyllinguna á meðan bökuskelin er í ofninum. Hrærið jógúrt, heil egg og eggjarauður saman í skál eða könnu og kryddið vel með salti og pipar. Hrærið frosnu baununum saman við og setjið til hliðar.
Takið bökuskelina úr ofninum þegar hún er tilbúin, lyftið pappírs hringnum upp með baununum eða grjónunum, setjið til hliðar og látið kólna. Baunirnar eða grjónin má svo setja í krukku og nota næst þegar á að baka eitthvað blint - en ekki reyna að hafa þetta í matinn! Setjið tóma bökuskelina aftur í ofninn og bakið í 5 mínútur.
Hellið fyllingunni gætilega í bakaða skelina. Leggið geitaosts sneiðarnar ofan á og stráið söxuðum graslauk yfir. Setjið bökuna aftur í ofninn í 25 mínútur, eða þar til fyllingin hefur stífnað og er gullinbrún.
Magn: 4 ríflegir skammtar
Undirbúningstími: 10 mínútur
Eldunartími alls: 45 mínútur
Hentar grænmetisætum.
Uppskriftin er úr bókinni Fjórar vikur fjögur ráð eftir Glúkósagyðjuna Jessie Inchauspe. Bókin fæst í vefverslun Hreyfingar.